Skráning í Ungfrú Ísland er í fullum gangi og stendur út mars. Birgitta Líf Björnsdóttir, framkvæmdastjóri keppninnar, segir að keppnin sé fyrir allar þær stelpur sem langi til að upplifa ný tækifæri.
„Við leitum að stúlkum á aldrinum 18-25 ára frá öllum hornum landsins sem hafa áhuga á að taka þátt í þessu skemmtilega ævintýri með okkur. Leitast er eftir að velja fjölbreyttan hóp, bæði eftir aldri, áhugasviði, og framtíðarsýn,“ segir Birgitta Líf.
Spurð af hverju stúlkur ættu að taka þátt í Ungfrú Íslandi segir Birgitta keppnina vera ótrúlega skemmtilegt ferli. „Þetta er vettvangur fyrir ungar stelpur til að upplifa nýja hluti, fá aukið sjálfstraust, eignast góðar vinkonur og opnar á ný tækifæri.“
Birgitta segir að töluverðar breytingar hafi orðið á keppninni eftir að nýir eigendur tóku við henni árið 2014. „Keppnin í dag snýst um að velja verðugan fulltrúa fyrir Íslands hönd í Miss World. Mikil áhersla er lögð á að stúlkurnar þroskist og dafni meðan á ferlinu stendur, auki sjálfstraust, taki þátt í góðgerðarstörfum, fái fjölmiðlafræðslu, fari á Dale Carnegie-námskeið, læri að koma fram á sviði og í tískusýningu, fái reynslu í fyrirsætustörfum, eignist góðar vinkonur og taki þátt í ýmsum fleiri skemmtilegum og fræðandi viðburðum yfir sumarið.“
Skráning í keppnina hófst í mars og stendur hún út mánuðinn. Stefnt er að því að lokahópurinn verði tilbúinn í maí en þá fer af stað langt ferli. „Ferlið hefst í júní og stendur það yfir í þrjá mánuði, eða fram að lokakvöldinu sem verður haldið með pompi og prakt í Hörpunni 26. ágúst.“
Skráningar fara fram í gegnum ungfruisland@ungfruisland.is og er hægt að nálgast allar upplýsingar hér.